Innlent

Utanríkisráðherra á allsherjarþing SÞ

MYND/Valgarður

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, heldur í dag á 61. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Í tengslum við allsherjarþingið mun utanríkisráðherra meðal annars sitja fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkja og utanríkisráðherra Norðurlanda. Ráðherra mun einnig sitja hádegisverðarfund ráðherra Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Utanríkisráðherra mun eiga tvíhliða fundi með fjölda ráðherra, m.a. til að kynna framboð Íslands til setu í öryggisráði S.þ. á árunum 2009-2010. Einnig hefur ráðherra þegið boð utanríkisráðherra Bandaríkjanna um þátttöku í hringborðsumræðum um hvernig auka megi völd kvenna og þátttöku þeirra á hinum ýmsu sviðum samfélagsins, ekki síst í stjórnmálum og á vinnumarkaðnum.

Utanríkisráðherra flytur ræðu sína á allsherjarþinginu þann 26. september og ávarpar íslensk-ameríska verslunarráðið þann 27. september. Fyrirhuguð heimkoma utanríkisráðherra er 28. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×