Norska útgerðarfélagið Austevoll Seafood var skráð í Kauphöllina í Ósló í vikunni að undangengnu hlutafjárútboði. Er virði félagsins metið á 75 milljarða króna sem gerir það að næststærsta sjávarútvegsfyrirtækinu á eftir Pan Fish. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.
Austevoll er umsvifamikið í uppsjávarveiðum í Noregi og í framleiðslu á fiskimjöli í Chile og Perú. Ætlunin er að nota nýja hlutaféð til vaxtar í þessum þremur löndum. Veltir félagið um 37 milljörðum króna á ári.
Forstjóri félagsins er hinn þrítugi Arne Møgster, sem er jafnframt yngsti forstjórinn í norsku kauphöllinni, en faðir hans og frændi eru stærstu hluthafar Austevoll.- eþa
