Innlent

Of snemmt að fagna sigri

Stefán Úlfarsson
Stefán Úlfarsson MYND/vilhelm

Vísitala neysluverðs í júlí hækkaði um 0,46 prósent frá því í júní, samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Þessi hækkun er undir væntingum greiningaraðila, sem höfðu spáð 0,55 til 0,7 prósenta hækkun.

Stefán Úlfarsson, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, segir hugsanlegt að nýlegar aðgerðir aðila vinnumarkaðins og ríkisstjórnarinnar séu hér að hafa áhrif en of snemmt sé að fagna sigri. "Verðbólgan er enn gríðarlega mikil, í 8,4 prósentum, og við erum rétt að byrja þessa vegferð."

Meiningarmunur hefur verið á milli ASÍ og Seðlabankans um hversu neikvæðar verðbólguhorfurnar eru að sögn Stefáns. "Við teljum spá Seðlabankans of neikvæða, sem hafi þau áhrif að hann grípi til of harkalegra aðhalds­aðgerða. Það hefur í för með sér þyngri greiðslubyrði sem leiðir til meiri samdráttar og harðari lendingar hagkerfisins. Við teljum að við munum ná okkur á eðlilegt ról við lok næsta árs og ekki þurfi að grípa til jafn harkalegra aðgerða af hálfu Seðlabankans, eins og hann gerði í seinustu vaxtahækkun.

Ingimundur Friðriksson Seðlabankastjóri segir óvarlegt að túlka eins mánaðar hreyfingu og þetta breyti í engu mati bankans sem birtist í Peningamálum í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×