Innlent

Verðbætur á ellefta milljarð

Bankar græða á verðbólgu Hagnaður stóru bankanna af verðbótum er áætlaður ellefu milljarðar á öðrum ársfjórðungi.
Bankar græða á verðbólgu Hagnaður stóru bankanna af verðbótum er áætlaður ellefu milljarðar á öðrum ársfjórðungi.

Talið er líklegt að hagnaður viðskiptabankanna þriggja af verðbótum hafi numið um 10,5 - 10,9 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Verðbólga mældist um 3,8 prósent á tímabilinu og hafði mikil áhrif á afkomu bankanna sem eiga yfir 350 milljarða í verðtryggðum eignum að frádregnum skuldum.

Verðbætur koma inn sem vaxtatekjur í bækur bankanna.

Verðtryggingajöfnuður Glitnis banka var jákvæður um 110 milljarða króna í lok fyrsta ársfjórðungs og reiknar greiningardeild Landsbankans með því að hagnaður Glitnis af verðbótum á öðrum árshluta hafi numið rúmum þremur milljörðum króna. Þá gerir Landsbankinn ráð fyrir að hagnaður KB banka af verðbótum hafi verið sams konar.

Verðtryggingajöfnuður Landsbankans var öllu meiri í lok fyrsta ársfjórðungs en hinna bankanna, eða um 150 milljarðar króna. Af því má ætla að hagnaður bankans af aukinni verðbólgu hafi numið rúmum 4,6 milljörðum króna.

Þá er búist við að vaxtatekjur bankanna hafi aukist verulega vegna veikingar krónunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×