Innlent

Með kíló af kókaíni í skónum

Íslenskt par um tvítugt var stöðvað af tollvörðum í Leifsstöð á fimmtudag með kíló af kókaíni falið í skóm sínum.

Fólkið, sem er 23 og 24 ára, var að koma frá Frankfurt í Þýskalandi og hafði búið skófatnað sinn þannig að í hvern skó var hægt að koma 250 grömmum af kókaíni auðveldlega fyrir. Götuandvirði kókaínsins er samkvæmt heimildum Fréttablaðsins á bilinu tólf til fjórtán milljónir íslenskra króna.

Skórnir sem notaðir voru eru Timberland gerðar með þykkum sólum, en efnið var falið á víð og dreif í skónum. Við húsleit hjá parinu fundu lögreglumenn síðan kíló af hassi.

Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, vill ekki gefa frekari skýringar á hvernig tollgæslunni hugnaðist að leita í skófatnaði fólksins, nema að um hefðbundið eftirlit hafi verið að ræða.

Það að efnin skyldu finnast svona vel falin er til marks um það öfluga eftirlit sem er við lýði hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli, segir Jóhann. Hvort parið væri grunað um að vera burðardýr fyrir þriðja aðila, kvað Jóhann enn of snemmt að álykta um slíkt.

Parið var úrskurðað í tveggja vikna gæsluvarðhald og er rannsókn málsins enn í gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×