Innlent

Nýtt skipulag Fréttablaðsins

Fréttastjórar Fréttablaðsins Sigríður Björg Tómasdóttir, Trausti Hafliðason og Arndís Þorgeirsdóttir.
Fréttastjórar Fréttablaðsins Sigríður Björg Tómasdóttir, Trausti Hafliðason og Arndís Þorgeirsdóttir. MYND/Stefán

Nýtt starfsskipulag tekur gildi á ritstjórn Fréttablaðsins í dag. Í nýju skipulagi felst að starfsemi ritstjórnar er skipt í tvö höfuðsvið undir stjórn tveggja aðstoðarritstjóra. Þá taka fréttastjórar við daglegri yfirstjórn frétta.

Undir annað meginsviðið falla fréttir, helgarefni og íþróttir. Það lýtur yfirstjórn Jóns Kaldal sem verið hefur aðstoðarritstjóri blaðsins frá 2004. Undir hitt meginsviðið fellur innblaðsefni, Allt og önnur sérblöð auk gæðamála. Steinunn Stefánsdóttir, nýr aðstoðarritstjóri, fer með yfirstjórn þess.

Þá verða breytingar á fréttadeild. Starf sérstaks fréttaritstjóra verður aflagt en fréttastjórar taka við daglegri yfirstjórn frétta auk þess að stýra áfram fréttavöktum. Fréttastjórar eru Arndís Þorgeirsdóttir, sem hóf störf á blaðinu 2005, og Sigríður Björg Tómasdóttir og Trausti Hafliðason sem bæði hafa unnið á Fréttablaðinu frá stofnun þess.

Vinna við nýtt skipulag og skipurit Fréttablaðsins hófst í maí og hefur verið unnið með aðstoð ráðgjafarfyrirtækisins IMG. Við breytingarnar var ör þróun Fréttablaðsins og þörf fyrir skipulag sem fellur vel að stærð þess og framtíðarhlutverki höfð að leiðarljósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×