Innlent

Sprengjur fjarlægðar

Að sögn Adrians J. King, sprengjusérfræðings hjá Landhelgisgæslunni, vinnur sprengju­deild gæslunnar að skýrslu vegna sprengihættu við El Grillo.

Landhelgisgæslan hefur fjarlægt yfir fimm hundruð sprengjur úr skipinu síðan 1972. Flestar þeirra hafa verið í mjög góðu ástandi og því bæði hættulegar þeim sem ekki hafa vit á að láta þessa hluti vera og eins einstaklingum sem taka með sér sprengjur úr flakinu fyrir forvitnissakir.

Það er meðal annars vegna þessa sem sprengjudeild gæslunnar vinnur að skýrslu um hvernig bregðast megi við sprengihættu við flakið.

Í síðustu viku fór sprengjudeildin enn eina ferðina niður að flaki El Grillo í Seyðisfirði til að fjarlægja sprengikúlur sem fundust þar af köfurum.

Sérstaklega þjálfaðir kafarar sprengjudeildarinnar fundu þriggja tommu sprengikúlu úr loftvarnarbyssu skipsins. Sprengikúlan var virk og í mjög góðu ástandi miðað við að hafa legið á hafsbotni í rúm sextíu ár.

Kúlunni var fargað síðar um daginn, með þeim hætti að hún var sprengd upp á tveggja metra dýpi í fjöru á Seyðisfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×