Innlent

Feginn að málinu sé lokið

Holberg Másson
Holberg Másson

Mál þeirra þriggja manna sem lögreglan í Reykjavík handtók í janúar vegna gruns um fjársvik hefur nú verið fellt niður. Mennirnir, einn Íslendingur og tveir útlendingar, voru handteknir í Íslandsbanka, grunaðir um að hafa ætlað að svíkja hundruð milljóna íslenskra króna úr bankanum.

Að sögn Harðar Jóhannssonar, yfirlögregluþjóns lögreglunnar í Reykjavík, þótti einfaldlega ekki ástæða til að halda áfram með rannsókn málsins og því var henni formlega hætt.

Holberg Másson, Íslendingurinn sem var handtekinn, segist afar ánægður með að málinu sé lokið. „Augljóslega hef ég vitað það frá upphafi að málið var byggt á röngum upplýsingum en engu að síður er afskaplega leiðinlegt að lenda í þessu. Þetta mál hefur verið erfitt fyrir mig og fjölskyldu mína og við erum mjög fegin að þessu sé lokið.“

Hann segir að verið sé að kanna grundvöll fyrir skaðabótamáli. „Lögmaður minn er nú að skrifa bréf þar sem farið verður fram á bætur vegna ólögmætrar handtöku. Svo verður í framhaldi af því skoðað hvort farið verður í skaðabótamál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×