Innlent

Gantaðist við verjanda sinn

Sakborningurinn Romas hefur áfrýjað máli sínu til Hæstaréttar.
Sakborningurinn Romas hefur áfrýjað máli sínu til Hæstaréttar. MYND/Hörður

Romas Kosakovskis, Litháinn sem reyndi að smygla rúmum tveimur lítrum af amfetamínbasa og tæpum lítra af brennisteinssýru inn til landsins í lok febrúar síðastliðnum, var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þar að auki var honum gert að greiða rúma milljón króna í sakarkostnað.

Romas sýndi engin svipbrigði við dómsuppkvaðninguna, en létt virtist yfir honum áður en dómari gekk í salinn því hann gantaðist við lögfræðing sinn, Björgvin Jónsson, áður en dómshald hófst.

Að dómsuppkvaðningu lokinni kaus Romas að una dómnum ekki og áfrýjaði máli sínu til Hæstaréttar Íslands. Gæsluvarðhald yfir honum var því framlengt þar til Hæstiréttur kveður upp dóm í málinu. Vökvinn sem Romas reyndi að smygla inn til landsins fyrr á þessu ári hefði dugað til framleiðslu á um sautján kílóum af amfetamíni. Ef hann hefði haft það magn í fórum sínum þegar hann var handtekinn, hefði hann mátt búast við 12 til 13 ára dómi.

Samkvæmt Daða Kristjánssyni, lögfræðingi ákæruvaldsins, er vaninn sá að erlendir glæpamenn afpláni aðeins helming dóms, á meðan heimamenn séu látnir afplána tvo þriðju hluta refsingarinnar. Hann segir ástæðu þess vera að erfiðara reynist erlendum glæpamönnum að afplána dóm í íslenskum fangelsum heldur en íslenskum kollegum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×