Innlent

Vonast eftir friðsemd og ró

Andrea Hólm ásamt fjölskyldu Nánasta fjölskylda eiginmanns Andreu býr á átakasvæðum í Líbanon.
Andrea Hólm ásamt fjölskyldu Nánasta fjölskylda eiginmanns Andreu býr á átakasvæðum í Líbanon. MYND/Stefán

Andrea Hólm og maður hennar, Hassan Jami Chahla, hafa ekki enn náð sambandi við nánustu fjölskyldu hans sem býr í þeim hluta Beirútborgar þar sem árásir Ísraela hafa aukist dag frá degi að undanförnu.

Andrea og Hassan Jami eru stödd hér á landi í sumarfríi, en eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær hefur þeim ekki tekist að ná sambandi við nána fjölskyldumeðlimi eiginmanns Andreu. „Við höfum reynt að ná sambandi við fjölskylduna en án árangurs. Það hafa þó einhverjir fengið að leita skjóls í íbúðinni okkar, sem er í hverfi þar sem átök hafa ekki verið eins mikil og í öðrum hluta borgarinnar. Við vonum það besta en því miður erum við ekki viss um að farsæl lausn náist í þetta skiptið, þar sem ágreiningurinn er svo djúpstæður,“ segir Andrea.

Mikil óvild hefur ávallt ríkt á milli Líbana og Ísraelsmanna en Andrea segir óvildina hafa stigmagnast með vaxandi styrk árása Ísraelshers á byggð í Líbanon. „Reiðin hjá íbúum í Líbanon í garð Ísraelsmanna hefur alltaf verið mikil en ég er hrædd um að ástandið núna verði ekki auðleyst. Vonandi grípur alþjóðasamfélagið inn í atburðina. Það er hrikalega erfitt að fylgjast með þessum hörmungum,“ segir Andrea en óvíst er hvenær þau hjónin komast til Líbanon ásamt börnum sínum fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×