Innlent

Segist ekki deila við dómarann

Sturla Böðvarsson
Sturla Böðvarsson

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segist ekki ætla að afnema núverandi vaktakerfi flugumferðarstjóra í flugstjórnarmiðstöðinni, en Félag íslenskra flugumferðarstjóra skoraði á hann á dögunum að fella vaktakerfið úr gildi og taka upp það kerfi sem gilti áður. „Ég tel afar mikilvægt að stjórnendur og flugumferðarstjórar nái samkomulagi um þetta, en niðurstöðu Félagsdóms verður ekki áfrýjað. Ég deili ekki við dómarann að því leyti,“ segir hann.

Loftur Jóhannsson, formaður félagsins, segist hafa heyrt af ákvörðun Sturlu en ekkert hafi verið rætt um hana innan félagsins. „Ég er sammála því að sættir eru besta lausnin á deilum en við höfum enga aðkomu að málinu í rauninni. Við sættum okkur ekki við stöðuna eins og hún er.“

Félagsdómur úrskurðaði nýlega að breytingar stjórnenda Flugmálastjórnar á vaktakerfi flugumferðarstjóra skyldu standa þrátt fyrir mótmæli starfsmanna. Meðal breytinga er ný skilgreining á orðinu „dagur“, en samkvæmt nýja kerfinu má vikulegt 48 klukkustunda frí flugumferðarstjóra hefjast hvenær sem er sólarhringsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×