Innlent

Afsláttur til ríkisins upplýstur

Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur gert Ríkiskaupum að afhenda forráðamönnum Atlantsolíu niðurstöðu útboðs frá því árið 2003 vegna eldsneytiskaupa ríkisstofnana. Ríkiskaup hafði neitað að láta gögnin af hendi og kærði Atlantsolía neitunina. Gögnin verða afhent á hádegi í dag.

Gögnin sýna verðið sem ríkið greiðir Skeljungi og Olís fyrir eldsneyti, olíur og rekstrarvörur á ökutæki og vélar. Samið var til þriggja ára og hefur samningurinn verið tvíframlengdur og gildir hann til 30. apríl á næsta ári. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að verð og afslættir sem ríkið greiddi félli undir mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækjanna.

Albert Þór Magnússon, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, segir að upplýsingar eigi að fullvissa forsvarmenn fyrirtækisins um að í þeim leynist ekki eimur frá fornri tíð. Þar á hann við verðsamráð olíufélaganna: „Þegar upphaflegt útboð var sett í gang 2003 voru markaðsaðstæður með öðrum hætti en nú,“ segir Albert. Hann segir samkeppnina hafa aukist og að verðið bjóðist nú lægra: „Við viljum sannreyna hvort unnt sé að bjóða betur en gert var fyrir þremur árum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×