Innlent

Aðeins tímabundin ráðstöfun

vopnaleitarsalur í leifsstöð Starfsmenn Securitas og Öryggismiðstöðvar Íslands sinna öryggisleit ásamt starfsmönnum Flugmálastjórnar.
vopnaleitarsalur í leifsstöð Starfsmenn Securitas og Öryggismiðstöðvar Íslands sinna öryggisleit ásamt starfsmönnum Flugmálastjórnar.

Aðkoma einkaaðila að öryggisleit á Keflavíkurflugvelli er tímabundin ráðstöfun sem verður endurskoðuð á haustmánuðum að sögn Björns Inga Knútssonar, flugvallarstjóra á Keflavíkurflugvelli. Álíta margir þetta fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu öryggisgæslu á vellinum.

Athugasemdir bárust frá eftirlitsstofnun evrópska efnahagssvæðisins í febrúar við að öryggisleit á komufarþegum frá löndum utan ESB væri ekki fyrir hendi. Að sögn Björns þurfti að bregðast skjótt við þessum athugasemdum. „Við hefðum þurft að ráða inn 30 til 40 manns til að takast á við þessa viðbót í starfsemi sem var ekki að nást þó auglýst hafi verið eftir fólki og því snerum við okkur til einkaaðila.“

Lögreglumenn og tollverðir sem Fréttablaðið hefur rætt við telja að starfsmenn utanaðkomandi öryggis­gæslufyrirtækja hafi engan rétt til líkamsleitar á fólki og segja þeir dæmi um að karlkyns öryggisverðir leiti á kvenkyns farþegum, sem er ólöglegt með öllu.

Björn segir að ekki hafi nein kvörtun borist vegna öryggisleitar, hvorki skrifleg né munnleg. „Öryggisleitin er alltaf undir stjórn starfsmanna flugmálastjórnar. Starfsmenn öryggisþjónustanna voru sendir á námskeið um hvernig standa eigi að öryggisleit og sinna starfinu af stakri prýði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×