Innlent

20 milljónum stolið úr heimabönkum

Mynd/Hari

Nær tuttugu milljónum króna hefur verið stolið af bankareikningum fólks hér á landi að undanförnu. Í öllum tilvikum hafa þjófarnir farið án heimildar inn í heimabanka viðkomandi og millifært af reikningum.

Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú fjögur umfangsmikil mál þar sem slík rán hafa verið framin. Í sumum málanna er um fleiri en eina millifærslu að ræða. Enn fremur hafa sumar millifærslurnar verið framkvæmdar í tölvum í útlöndum, þar sem IP-tölurnar, sem eru nokkurs konar kennitala tölvunnar, eru erlendar. Í öðrum tilvikum hefur verið um íslenskar IP-tölur að ræða.

Þá hefur Fréttablaðið heimildir fyrir því að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós tengsl milli mála, þar sem grunur leikur á að sömu þjófarnir hafi verið að verki í sjö tilvikum. Í þeim voru umtalsverðar fjárhæðir millifærðar af reikningum fólks og peningarnir settir inn á reikninga manna sem allir áttu það sameiginlegt að hafa komið við sögu lögreglu með einum eða öðrum hætti.

Rannsókn lögreglunnar hefur einnig leitt í ljós að fjárhæðir voru millifærðar frá tölvum með erlendar IP-tölur inn á reikninga tveggja einstaklinga hér á landi, sem síðar tóku þær út og sentu til útlanda með peningaflutningafyrirtækinu Western Union. Í þeim tilvikum leikur grunur á að um peningaþvætti hafi verið að ræða.

Rannsókn lögreglu á þessum málum er á lokastigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×