Innlent

Viðræður báru ekki ávöxt

flugumferðarstjóri að störfum Flugmálastjórn segir vaktabreytingarnar hafa verið gerðar eftir sjö ára árangurslausar samningaviðræður við flugumferðarstjóra.
flugumferðarstjóri að störfum Flugmálastjórn segir vaktabreytingarnar hafa verið gerðar eftir sjö ára árangurslausar samningaviðræður við flugumferðarstjóra.

Flugmálastjórn Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem breytingar á vaktakerfi flugumferðarstjóra eru útskýrðar og varðar. Í tilkynningunni kemur fram að viðræður um breytingar á vaktakerfi hafi staðið yfir milli Flugmálastjórnar og Félags íslenskra flugumferðarstjóra frá árinu 1999.

Eftir að ljóst var að ekki næðist samkomulag taldi Flugmálastjórn rétt að gera nauðsynlegar breytingar á vaktakerfinu fyrr á þessu ári. Það var gert einkum til að bæta mönnun á álagstímum og nýta betur starfskrafta stofnunarinnar. Til breytinganna kom hinn 16. mars síðastliðinn.

Hinn 6. júlí kvað Félagsdómur upp dóm í máli Félags íslenskra flugumferðarstjóra gegn íslenska ríkinu þar sem ágreiningur snerist meðal annars um það hvort Flugmálastjórn hefði verið heimilt að breyta vaktakerfinu án samráðs við flugumferðarstjóra. Ríkið var sýknað af öllum kröfum.

Á dögunum sagðist Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ekki ætla að deila við dómarann í þessu máli, dómur Félagsdóms stæði. Loftur Jóhannsson, for­maður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir félagsmenn mjög ósátta með meðferð málsins, erfitt sé að sættast þegar annar deiluaðilinn hafi lýst því yfir að hann vilji ekki semja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×