Innlent

Réðst á lögreglumann í lyftu

Öryggisvörður Hagkaupa í Skeifunni gerði lögreglu viðvart vegna manns sem virtist í annarlegu ástandi við verslunina, um hálf ellefu leytið í gærmorgun.

Maðurinn, sem er um þrítugt, spígsporaði um bílaplan verslunarinnar og hélt því staðfastlega fram að hann ætti verslunina og að hann þyrfti nauðsynlega að komast inn. Hann lét öllum illum látum og lamdi á hurð verslunarinnar og því ákvað öryggisvörðurinn að kalla til lögreglu.

Þegar lögregla kom á vettvang virtist maðurinn í mjög annarlegu ástandi og er hann grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Lögregla handtók manninn og færði til yfirheyrslu.

Þegar á lögreglustöðina var komið réðst maðurinn á lögreglumann í lyftu, með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka. Lögreglumaðurinn leitaði til

slysastofu eftir árásina og hefur kært atvikið.

Maðurinn er enn í haldi lögreglu og verður yfirheyrður um leið og áhrifin renna af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×