Innlent

Ný vegabréf á örfáum dögum

Nýju vegabréfin Mikið hefur verið um breytingar í afgreiðslu vegabréfa síðustu mánuði, fyrst með rafrænu vegabréfunum og nú með styttingu biðtíma.
Nýju vegabréfin Mikið hefur verið um breytingar í afgreiðslu vegabréfa síðustu mánuði, fyrst með rafrænu vegabréfunum og nú með styttingu biðtíma. MYND/Stefán
Vegabréf Innan nokkurra vikna verða kynntar breyttar reglur um biðtíma vegna nýrra vegabréfa. Nú er gert ráð fyrir að biðtíminn sé tíu virkir dagar, en í kjölfar breytinganna gæti hann styst niður í örfáa daga.

„Við stefnum að því að stytta biðtímann talsvert, þegar við erum búnir að vinna úr byrjunarvandamálum á nýju rafrænu vegabréfunum með örflögunum,“ segir Jóhann Jóhannsson hjá Þjóðskrá. Í nýju rafrænu vegabréfunum eru margar nýjungar og stefnt er að því að skrá á þau fingraför, en það mun þó ekki gerast fyrr en eftir þrjú ár. Þjóðskrá tók við málum vegabréfa í vor þegar hún var færð undir dómsmálaráðuneytið.

Engin innköllun er á vegabréfunum vegna breytinganna yfir í rafrænu vegabréfin. „Það eina er að ef fólk vill fara án áritunar til Bandaríkjanna þarf vegabréf að vera gefið út eftir 1. júní 1999,“ segir Jóhann. Að öðru leyti gilda öll eldri vegabréf, eftir því sem gildistími segir til um.

„Við erum bjartsýnir á að geta stytt biðtímann verulega mikið, niður í örfáa daga, en ég get ekkert sagt nánar um það að svo stöddu,“ segir Jóhann.

Áfram verður boðið upp á flýtimeðferð á afgreiðslu vegabréfa gegn aukagreiðslu. - sgj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×