Erlent

Litlar líkur á samkomulagi

Krefjast sjálfstæðis Fjölmennur útifundur var haldinn í Pristina, höfuðborg Kosovo-héraðs, í gær meðan leiðtogar héraðsins hittu leiðtoga Serbíu í Vínarborg til þess að ræða deilur um framtíð héraðsins.
Krefjast sjálfstæðis Fjölmennur útifundur var haldinn í Pristina, höfuðborg Kosovo-héraðs, í gær meðan leiðtogar héraðsins hittu leiðtoga Serbíu í Vínarborg til þess að ræða deilur um framtíð héraðsins. MYND/AP

Forystumenn Serbíu og albanskra íbúa í Kosovo hittust í gær í Vínarborg í Austurríki til þess að finna lausn á ágreiningi þeirra um framtíð Kosovo. Líkur á samkomulagi þykja þó litlar.

Albanski meirihlutinn í héraðinu vill sjálfstæði, en Serbar vilja að Kosovo fái umtalsvert heimastjórnarvald en verði þó áfram hérað innan landamæra Serbíu.

Leiðtogar serbnesku sendinefndarinnar voru Boris Tadic forseti og Vojislav Kostunica forsætisráðherra, en hann sagði útilokað að Serbar myndu sætta sig við að stofnað yrði sjálfstætt ríki í Kosovo.

Í albönsku sendinefndinni voru Fatmir Sejdiu forseti og Agim Seku, sem er forsætisráðherra héraðsins. Sejdiu sagði enga leið að hunsa vilja albanska meirihlutans. „Sjálfstæði er alfa og ómega, upphaf og endir afstöðu okkar,“ sagði hann.

Viðræðurnar, sem hófust í gær, eru þær fyrstu sem haldnar eru um framtíð héraðsins frá því árið 1999, þegar stríðið þar stóð sem hæst. Þeim viðræðum lauk án árangurs og í framhaldi af því hófust loftárásir NATO sem stóðu í 78 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×