Viðskipti innlent

Sala stórhýsis gengur vel

Smáratorg.  Tölvumynd af háhýsinu.
Smáratorg. Tölvumynd af háhýsinu.

Fjórtán hæðum hefur verið ráðstafað í stórhýsi Rúmfatalagersins sem nú er í byggingu við Smáratorg í Kópavogi. Meðal leigjenda eru endurskoðunarfyrirtækið Deloitte sem hyggst flytja höfuðstöðvar sínar í bygginguna og KB banki sem hefur tekið frá eina hæð ofarlega í húsinu.

Stórhýsið verður hið hæsta á Íslandi, 77,6 metra hátt. Turninn er alls tuttugu hæðir sem hver um sig er 780 fermetrar. Á neðstu tveimur hæðunum er gert ráð fyrir verslunarmiðstöð en veitingahúsi á þeirri efstu.

Undir byggingunni er tæplega sex þúsund fermetra bílageymsla. Fermetraverð er á bilinu fjórtán til átján hundruð krónur á mánuði.

Eingöngu er um leigurými að ræða en leigjendur taka við húsnæðinu í ákveðnu ástandi og klára síðan fráganginn eftir eigin höfði. Áætlað er að framkvæmdin kosti rúma þrjá milljarða króna og að byggingin verði tilbúin þann fyrsta október 2007.

"Salan hefur gengið hreint ágætlega og við sjáum ekki fram á annað en að allt pláss verði útleigt," segir Ólafur Hermannsson verkefnisstjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×