Viðskipti innlent

Neytendur svartsýnir um horfurnar

Keypt í matinn Neytendur hafa ekki verið svartsýnni um ástand og horfur í efnahagsmálum næstu sex mánaða í rúm fjögur ár.
Keypt í matinn Neytendur hafa ekki verið svartsýnni um ástand og horfur í efnahagsmálum næstu sex mánaða í rúm fjögur ár. MYND/E.ól

Bjartsýni íslenskra neytenda minnkaði á milli mánaða og hafa þeir ekki verið svartsýnni á ástand og horfur í efnahagsmálum næsta hálfa árið síðan á haustdögum árið 2001. Þetta kemur fram í nýjustu mælingu Gallup á Væntingavísitölunni, sem birt var í gærmorgun.

Greiningardeild Glitnis banka segir mat neytenda á núverandi ástandi lækka minna en væntingar þeirra til næstu sex mánaða. Vísitalan sem mælir mat á núverandi stöðu er 119,4 stig en sú sem mælir væntingar til næstu sex mánaða stendur í 67,2 stigum og hefur ekki verið lægri í rúm fjögur ár. Staða efnahagsmála á haustdögum 2001 var svipuð og nú en þensluskeið og kaupmáttaraukning var senn á enda í kjölfar snarprar gengislækkunar krónu.

Konur eru almennt svartsýnni en karlar og hinir eldri eru neikvæðari en þeir yngri. Bjartsýni neytenda eykst hins vegar með auknum tekjum svarenda.

Deildin segir ekki koma á óvart að trú neytenda á ástandi og horfum hafi minnkað. Vaxandi verðbólga og hærri vextir sé mörgum áhyggjuefni.

Væntingavísitalan gefur vísbendingu um þróun á einkaneyslu og segir greiningardeildin sennilegt að hægja muni á henni eftir því sem líði á árið eftir hraðan vöxt undanfarin misseri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×