Viðskipti erlent

Bílaverð í hæstu hæðum á eBay

Ferrari enzo Ein af ástæðum þess að bílar af gerðinni Ferrari Enzo eru dýrir er sú að einungis 400 slíkir bílar voru fram­leiddir.
Ferrari enzo Ein af ástæðum þess að bílar af gerðinni Ferrari Enzo eru dýrir er sú að einungis 400 slíkir bílar voru fram­leiddir. MYND/Njáll

Rauður Ferrari Enzo sportbíll er við það að slá verðmet í útibúi uppboðsvefsins eBay í Bretlandi Hæsta boð í bílinn nú stendur í rúmum 300.000 pundum eða um 40 milljónum íslenskra króna.

Dýrasti hluturinn sem fram til þessa hefur selst á uppboðsvefnum er handtaska sem eitt sinn var í eigu Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Hún fór á 103.000 pund eða tæpar 13,6 milljónir króna fyrir sex árum. Þetta er engu að síður nokkuð lægra verð en fékkst fyrir bíl sömu tegundar hjá uppboðsvefnum í Sviss fyrir tveimur árum en sá fór á 540.000 pund eða rúmlega 71 milljón króna á núvirði.

Ástæðan fyrir svo háu verði fyrir bílinn er sú að einungis voru framleiddir 400 bílar af þessari gerð. Á meðal þeirra sem eiga bíla sem þessa eru leikarinn Nicolas Cage, tónlistarmennirnir Eric Clapton og Rod Stewart og formúlukappinn Michael Schumacher.

Bíllinn, sem er tveggja ára gamall, hefur nær einungis verið notaður í auglýsingaskyni og því fremur lítið ekinn eða um 800 kílómetra.

Tilboðsfrestur rennur út á morgun. Núverandi eigandi tekur það hins vegar skýrt fram að verði bíllinn ekki í Bretlandi verði sá sem kaupir hann að sjá sjálfur um flutning á bílnum og greiða flutningskostnaðinn.-






Fleiri fréttir

Sjá meira


×