Innlent

Farþegum Strætó bs. fjölgar

Farþegum Strætó bs. fjölgaði um tuttugu prósent í júlí og ágúst samanborið við sömu mánuði í fyrra. Sé horft á annan ársþriðjung í heild nemur fjölgunin 9,2 prósentum. Er það mikill viðsnúningur frá fyrsta ársþriðjungi þegar farþegum fækkaði um 1,9 prósent frá sama tímabili í fyrra. Farþegar í júlí voru alls 559.315, miðað við 470.160 í fyrra, og í ágúst voru farþegar 755.325, miðað við 625.589 fyrir ári.

"Við álítum að þessa fjölgun megi rekja til þess að almenningur hefur nú betri þekkingu á nýja leiðakerfinu eftir endurbætur á því fyrr á árinu," segir Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó bs.

Rúmt ár er síðan nýtt leiðakerfi var tekið í notkun og voru talsverðar endurbætur gerðar á því í mars samkvæmt ábendingum frá viðskiptavinum og vagn­stjórum að sögn Ásgeirs. "Við merktum straumhvörf í viðhorfi viðskiptavina til þjónustunnar þarna eftir að við bættum við fleiri leiðum og komum til móts við þær aðfinnsluraddir sem uppi höfðu verið."

Ásgeir segir að áhersla verði nú lögð á stöðugleika í þjónustunni. "Við munum gera lagfæringar á leiðarkerfinu einu sinni á ári héðan í frá og verður reynt að miða þær við upphaf sumars."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×