Innlent

Verða það fyrsta sem fer upp á vegg

Bræðurnir Gísli og Úlfur Úlfarssynir festu nýlega kaup á gömlu húsi í miðbæ Ísafjarðar sem gengur undir nafninu Hæsti­kaupstaður. Húsið hefur um tíðina hýst alls konar starfssemi, síðast vídeóleigu og líkkistusmíði.

Þegar verið var að hreinsa til á háaloftinu fundust fjórar ævagamlar flöskur milli þilja, sem Úlfur telur líklegast að hafi endað þar fyrir slysni. „Merkilegasta flaskan er hindberja límonaði frá verslun Leonhard Tang,“ segir hann. „Tang var danskur og lét reisa þetta hús árið 1855 sem verslun. Þessi flaska gæti því verið hátt í 150 ára gömul og miðinn er einstaklega skýr ennþá. Ég lyktaði upp úr flöskunni en fann nú auðvitað enga lykt.“

Hinar flöskurnar sem fundust voru Carlsberg-flaska með hakakrossi, en Úlfur segir hana ekki meira en kannski sextíu ára gamla. Hinar flöskurnar eru óþekkjanlegar, en Úlfur segir líklegast að þær séu líka frá Carlsberg. „Hugmynd okkar bræðranna er að koma húsinu í upprunalegt ástand og gera svo eitthvað skemmtilegt í því. Ætli það verði ekki einhvers konar veitingarekstur. Það fer eftir því hvað við verðum kaldir hvenær af þessu verður, en það er ljóst að flöskurnar verða það fyrsta sem fer upp á vegg þegar við byrjum að skreyta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×