Innlent

Engan vökva í handfarangri

Jóhann R. benediktsson Segir ekki ljóst hversu lengi hert eftirlit með farþegum til Bandaríkjanna muni standa yfir.
Jóhann R. benediktsson Segir ekki ljóst hversu lengi hert eftirlit með farþegum til Bandaríkjanna muni standa yfir.

Á Keflavíkurflugvelli er enn strangt eftirlit með farþegum á leið til Bandaríkjanna. Leitað er í handfarangri allra farþega, en blátt bann við handfarangri er ekki í gildi. Stranglega bannað er að ferðast með vökva í handfarangri á leið til Bandaríkjanna, en enn er heimilt að ferðast með rafeindabúnað til dægrastyttingar.

Farþegum gefst kostur á að koma vökva sem þeir kaupa í fríhöfninni með í flugið, með því að afhenda vökvann vopnaleitarmönnum sem koma honum fyrir ásamt almennum farangri í lest flugvélarinnar. Leitin fer fram á sérstöku svæði í suðurhluta flugstöðvarinnar. Þessar ráðstafanir falla ekki inn í venjubundna vinnuferla og því þurfum við að kalla út átján manns aukalega til að koma í veg fyrir tafir, segir Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli. Að sögn Jóhanns er alls óvíst hversu lengi eftirlitið verður með þessum hætti.

Fríhöfn á jarðhæð í suðurhluta Leifsstöðvar hefur verið lokað vegna þessa. Þegar fólkið er þangað komið er það búið að fara í síðustu vopnaleitina og því var ákveðið að loka versluninni, segir Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar.

Enn eru engar sérstakar öryggisráðstafanir vegna flugs til Englands. Þó skal bent á að farþegar sem millilenda í Bretlandi á leið frá Íslandi geta átt von á því að vera stöðvaðir með handfarangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×