Innlent

Í betra ástandi en talið var

Hann kemur mikið betur upp heldur en ég bjóst við og mér líst vel á þetta, sagði Bjarni Thoroddsen hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík í gær þegar hvalveiðiskipið Hvalur 9 var tekið í slipp í fyrsta sinn í sautján ár. Botninn virðist vera næstum því bara eins og hann var þegar hann fór niður nema fyrir utan alla hrúðurkarlana sem eru á honum.

Bjarni telur að minna verk sé fyrir höndum heldur en talið var og segir ástandið muni skýrast á næstu dögum þegar verður farið að vinna í skipinu. Gott ástand skipsins í dag er að miklu leyti að þakka góðum frágangi á skipinu þegar hvalveiðar lögðust af á sínum tíma.

Kristján Loftsson, framkvæmdarstjóri Hvals hf. sem gerði út hvalveiðibátana á sínum tíma og mun gera að nýju ef að líkum lætur, var kampakátur í tilefni dagsins. Hann kvaðst ekki vita hvort að hvalveiðar í atvinnuskyni hefjist á ný en að ýmis teikn væru á lofti um það. Ef við förum aftur á veiðar verður búnaðurinn að vera í lagi og þetta er liður í að kanna það. Hvalirnir eru þarna úti og eru bara að bíða eftir skutlunum, sagði Kristján.

Aðspurður um áhrif hvalveiða á hvalaskoðun og ferðaþjónustuna í landinu sagði hann: Þetta getur vel farið saman. Fyrst er hægt að skoða hann og svo borða hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×