Innlent

Yfir átta hundrað börn bíða

VIÐ MELASKÓLA Enn vantar sextíu starfsmenn á frístundaheimilin í Reykjavík.
VIÐ MELASKÓLA Enn vantar sextíu starfsmenn á frístundaheimilin í Reykjavík.

 Alls bíða 816 börn eftir vistun á frístundaheimilum í Reykjavík. Flest börn bíða eftir plássi í Grafarvogi og Árbæ eða um 220 á hvorum stað.

Björn Ingi Hrafnsson, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, segir að alls hafi 2400 umsóknir borist um pláss á frístundaheimilin í Reykjavík sem sé fjölgun frá því í fyrra.

Enn vantar 60 starfsmenn á frístundaheimilin og segir Björn Ingi allt kapp lagt á að manna stöðurnar sem allra fyrst og að margar umsóknir séu í skoðun. „Í fyrra náðist ekki að manna frístundaheimilin fyrr en eftir áramót en vonandi gengur það betur núna.

Til að fá fólk til starfa er verið að kanna að gera samkomulag við félagsliðabraut Borgarholtsskóla og Kennaraháskólann um að nemendur þessara skóla fái einingar fyrir að vinna á frístundaheimilum. Þá hefur það verið rætt við menntasvið Reykjavíkurborgar hvort möguleiki sé að nýta starfsmenn grunnskólanna á frístundaheimilin.“

Björn Ingi segist hafa heyrt í foreldrum sem séu uggandi um að börn þeirra komist að en segir þá jafnframt sýna skilning á því að verið sé að vinna að þessum málum af fullum krafti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×