Innlent

Í haldi fyrir kynferðisbrot

Lögreglan í Reykjavík handtók í gær fimmtíu og tveggja ára gamlan karlmann vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

Grunur leikur á því að fórnarlömb mannsins séu fleiri en eitt. „Ég get staðfest það að maðurinn er í haldi lögreglu. Hann er í yfirheyrslum vegna grunsemda um kynferðisofbeldi gagnvart fleiri en einu barni. Hann hefur unnið sem blaðberi að undanförnu. Við erum að skoða þetta mál ítarlega en rannsókn málsins er stutt komin,“ segir Bjarnþór Aðalsteinsson.

Vitni í málinu voru einnig yfirheyrð í gær en rannsóknin beinist að tilteknum atvikum sem tilkynnt var um til Barnaverndar­nefndar.

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær kom málið inn á borð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur á föstudag. Í framhaldi var það sent til lögreglu, sem hóf fljótt rannsókn á málinu.

Maðurinn hefur reglulega skrifað inn á vefsíður á veraldarvefnum. Ein þeirra síðna þar sem hann hefur tjáð sig fjallar um barnauppeldi, trúmál og ýmis samfélagsleg málefni. Hann er skráður stuðningsfulltrúi en ekki hefur fengist staðfest að hann starfi sem slíkur. „Ég get ekki staðfest að hann starfi sem stuðningsfulltrúi,“ sagði Bjarnþór aðspurður um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×