Enski boltinn

Það var erfiðast að eiga við Ronaldo og Rooney

Hafa komið á óvart. Fyrir utan Portsmouth er Reading líklega mesta spútnikliðið það sem af er leiktíðinni í enska boltanum og á laugardag náði liðið jafntefli gegn Manchester United. Hér sjást leikmenn liðsins fagna marki Kevin Doyle sem hann skoraði úr vítaspyrnu í leiknum.
Hafa komið á óvart. Fyrir utan Portsmouth er Reading líklega mesta spútnikliðið það sem af er leiktíðinni í enska boltanum og á laugardag náði liðið jafntefli gegn Manchester United. Hér sjást leikmenn liðsins fagna marki Kevin Doyle sem hann skoraði úr vítaspyrnu í leiknum.

Ívar Ingimarsson fær 7 í einkunn hjá Sky Sports fréttastöðinni fyrir frammistöðu sína í jafnteflisleiknum gegn Manchester United á laugardaginn og Brynjar Björn Gunnarsson, sem kom inn á sem varamaður þegar um 20 mínútur voru eftir, fær 5 í einkunn. Enn fremur segir í umfjöllun að Ívar hafi verið mjög öflugur í vörninni ásamt félaga sínum Ibrahima Sonko en að Brynjar Björn hafi verið „allt í lagi“ eins og það segir orðrétt.

„Við erum bara sáttir við að hafa fengið annað stigið. Liðið er nú komið með 10 stig eftir sex leiki sem við teljum vel viðunandi,“ sagði Brynjar Björn við Fréttablaðið í gær. Því fer fjarri að leikmenn Reading fái frí eftir erfiðan leik gegn Manchester United því Brynjar var nýkominn af æfingu þegar Fréttablaðið ræddi við hann.

„Það var mjög skemmtilegt að taka þátt í þessum leik og ég held að ég geti alveg viðurkennt að Man. Utd sé besta liðið sem við höfum mætt það sem af er,“ sagði Brynjar. „Það var gaman að fá að spreyta sig gegn öllum þessum stjörnum í liðinu en það var erfiðast að eiga við Ronaldo og Rooney. Þeir eru gríðarlega flinkir og Ronaldo skoraði gott mark en mér fannst við samt ná að halda þeim niðri að mestu.“

Það vakti líklega athygli íslenskra sjónvarpsáhorfenda að þegar Brynjar Björn kom inn á um miðjan síðari hálfleik fékk hann leiðbeiningar frá stjóranum Steve Coppell á miða þar sem þeir stóðu við hliðarlínuna. „Þetta er nú ekki neitt sem hann gerir venjulega. Þetta voru bara nokkur taktísk skilaboð sem ég átti að koma áfram til annarra í liðinu, hver átti að dekka hvern í föstum leikatriðum,“ segir Brynjar Björn.

Sky segir Hermann Hreiðarsson ekki hafa verið upp á sitt besta í 2-0 tapi Charlton gegn Aston Villa en fær samt 6 í einkunn og þá fékk Heiðar Helguson 5 í einkunn eftir að hafa komið inn á undir lokin í leik Fulham og Chelsea. Segir Sky að Íslendingurinn hafi litlu náð að breyta í sókn Fulham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×