Innlent

Aldrei dauður punktur með Jóni Kr.

Félagarnir komnir að Dynjanda. Þar hefur Jón Kr. komið fyrir minnisvarða.
Félagarnir komnir að Dynjanda. Þar hefur Jón Kr. komið fyrir minnisvarða.

Þetta er búið að standa til í mörg ár, enda tónlistarsafnið, Bíldudalur og Jón Kr. allt saman mjög heillandi fyrirbæri, segir Steinn Skaptason, trommuleikari og tónlistaráhugamaður. Þetta stóð allt hundrað prósent og vel það undir væntingum. Safnið er mjög persónulegt og endurspeglar bæði Jón sjálfan og íslenska tónlistarsögu vel. Þarna er mjög góður andi.

Jón Kr. tók ferðalöngunum með opnum örmum. Við færðum safninu nokkrar gull- og platínuplötur með Sálinni sem Jón var mjög ánægður með. Ég held að við höfum fengið sérmeðferð þeirra vegna. Jón sveif með okkur aftur í tímann, sýndi okkur safnið hátt og lágt og jós úr sagnabrunni sínum. Hann er stórkostleg persóna og það var aldrei dauður punktur, segir Steinn.

Daginn eftir fór Jón Kr. með pílagrímunum í bíltúr. Við fórum að fossinum Dynjanda í Arnarfirði. Þar sýndi meistarinn okkur einn af mörgum minnisvörðum sem hann hefur reist víða um land á eigin kostnað af miklum dugnaði og hugsjón. Þennan minnisvörð reisti hann í tilefni af því að atriði í kvikmyndinni Börn náttúrunnar var tekið þarna við fossinn. Jón var einmitt með einsöng í þeirri mynd.

Steinn segist dást að því mikla starfi sem Jón hefur áorkað. Þetta var alveg stórkostleg upplifun, safnið alveg æðislegt og Jón sömuleiðis. Það er minn draumur að fara þarna aftur sem allra fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×