Innlent

Ekki til skoðunar að breyta opnunartíma skemmtistaða

MYND/Róbert Reynisson

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, segir hrottalegar nauðganir og önnur ofbeldisverk í borginni kalla á eflt samstarf lögreglu og borgaryfirvalda. Skoða verði hvort fjölga eigi lögreglumönnum og öryggismyndavélum í borginni. Hann segir hins vegar ekki á dagskrá að endurskoða opnunartíma vínveitingastaða í miðborginni.

Þrjár hrottalegar nauðganir í miðborginni á undanförnum hálfum mánuði hafa verið til umræðu í fjölmiðlum en lögreglan hefur ekki haft upp á ofbeldismönnunum. Borgarstjóri segir að þetta kalli á aðgerðir lögreglu og borgaryfirvalda.

Borgarstjóri segir líkast til hægt að fullyrða að nauðgunarmálum, þ.e. grófum nauðgunum, hafi fjölgað. Það verði að taka á þessu með ákveðnum hætti en hvernig sé ekki hægt að segja nú. Það sé verið að skoða það.

Hann segir að auðvitað séu þessi mál fyrst og fremst í höndum lögreglunnar. Þess vegna sé mikilvægt að það sé gott samstarf milli lögreglu og borgaryfirvalda og svo sé.

Borgarstjóri segir að rætt hafi verið innan borgarkerfisins og lögreglunnar að stytta opnunartíma skemmtistaða. Engin ákvörðun hafi þó verið tekin um slíkt og engin tillaga þess efnis uppi á borðinu.

Borgarstjóri segist hafa samþykkt breyttan opnunartíma á sínum tíma og skoðun hans í þeim efnum sé óbreytt. Staðan nú þýði að ekki verði óheppilegar hópamyndanir eins og áður en það neikvæða sé að langt úthald í neyslu áfengis og lyfja þýði laskaða dómgreind fólks og þá sé hætta á að válegir atburðir eigi sér stað þegar fólk skemmti sér fram undir morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×