Innlent

Kosta 280 milljónum í svæði varnarliðsins

Bráðabirgðasamkomulag var gert til að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar gæti strax hafið eftirlit með eignum.
Bráðabirgðasamkomulag var gert til að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar gæti strax hafið eftirlit með eignum. MYND/heiða

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar tekur við umönnun og eftirliti eigna á varnarsvæðinu í dag samkvæmt bráðabirgðaþjónustusamningi við stjórnvöld. „Við gerum okkur síðan vonir um að geta klárað heildarþjónustusamninginn í næstu viku,“ segir Magnús Gunnarsson, formaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

Ákveðið var að gera bráðabirgðaþjónustusamning til þess að félagið gæti strax byrjað að annast eftirlit með eignunum að sögn Magnúsar og fyrirbyggt annað óhapp eins og í seinustu viku þegar leki olli umtalsverðum skemmdum á eignum á svæðinu. „En fólk þarf að athuga að það voru innan við tíu prósent íbúða sem urðu þarna fyrir tjóni. Þetta eru innan við 70 íbúðir af um tvö þúsund. Það er ekki eins og allt svæðið hafi farið í rúst.“

Ekkert fordæmi er fyrir þjónustusamningi af þessu tagi og því tekur tíma að koma honum í framkvæmd að sögn Magnúsar. „Þjónustusamningurinn verður tvíþættur. Annars vegar munum við annast tæknilega umsjá með eignunum. Við munum rífa þær byggingar sem á að rífa og tryggja að hreinsun á svæðinu fari í gang eins og talað var um. Hins vegar munum við reyna að markaðssetja eignir í takt við þá hagsmunaaðila sem eru þarna á svæðinu.“

Tillaga um 280 milljóna króna tímabundið framlag til umsjónar varnarsvæðisins fyrrverandi við Keflavíkurflugvöll er lögð fram í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar. Kostnaðurinn er sagður felast meðal annars í umsýslu, viðhaldi, öryggisgæslu, umhirðu og öðrum húsnæðiskostnaði. Fjárveitingunni er einnig ætlað að standa undir kostnaði við þróun og umbreytingu á svæðinu. Fjárveitingin verður lækkuð þegar fasteignir á svæðinu verða settar í sjálfbær borgaraleg not að því er segir í álitinu.

Af þessum 280 milljónum fara 167,5 milljónir til Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Afgangurinn, 112,5 milljónir, fara í rekstur og uppbyggingu á svokölluðu öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli sem verður áfram varnarsvæði undir utanríkisráðuneytinu að sögn Péturs Ásgeirssonar, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu. „52,5 milljónir telststofnkostnaður sem er að einhverju leyti girðingar, aðgangsstýring, endurnýjun á rafkerfi á svæðinu og ýmis búnaður. Síðan fara 60 milljónir í rekstrarkostnað á svæðinu, á borð við hita, rafmagn og annað sem þar fellur undir.“

Pétur segir þessar 60 milljónir væntanlega ekki tímabundnar. „Þetta er sá rekstrarkostnaður sem við sjáum fyrir á næsta ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×