Innlent

Tíu milljarða aukning útgjalda

Í breytingartillögum fjárlaganefndar að fjárlagafrumvarpi er lagt til að tekjuafgangur ríkissjóðs minnki um sex og hálfan milljarð frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi 2007 sem lagt var fyrir Alþingi í október. Hagfræðingum atvinnulífs og banka líst ekki á blikuna.

Í breytingartillögunum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði rúmum þremum milljörðum krónum hærri en gert var ráð fyrir í frumvarpinu frá því í haust og því rúmir 376 milljarðar. Fjárveitingar eru hins vegar auknar og er því gert ráð fyrir því að um níu milljarða króna tekjuafgangur verði í stað 15,5 milljarða.

Alls er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs aukist um tæpa tíu milljarða frá því sem gert var ráð fyrir í haust. Mesta aukning fjárveitinga eftir ráðuneytum er til menntamálaráðuneytisins, um 1,7 milljarðar króna.

Þá eru fjárheimildir auknar um rúman einn og hálfan milljarð í heilbrigðisráðuneytinu þar sem jafnframt má finna mestu breytinguna á einstökum útgjaldalið frá upphaflega frumvarpinu. Lagt er til að einum milljarði króna verði veitt aukalega til að styrkja rekstrargrunn Landspítala - háskólasjúkrahúss, eins og það er orðað í tillögum fjárlaganefndar. Ástæðan er sögð sú að kostnaður við rekstur spítalans hafi aukist umtalsvert og einnig hafi starfsemi hans aukist.

Í aðeins einu ráðuneyti er gert ráð fyrir lægri fjárheimildum í endurskoðaða frumvarpinu, félagsmálaráðuneytinu, þar sem fjárveitingar lækka um rúmar níu hundruð milljónir. Munar þar mestu um bættar horfur á vinnumarkaði, en útgjöld vegna atvinnuleysisbóta miðuðust við 2,3 prósenta atvinnuleysi, en nú er gert ráð fyrir 1,9 prósentum. Útgjöld vegna atvinnuleysistryggingasjóðs lækka því um 820 milljónir.

Aukin gjöld

Ef einstaka útgjaldaliðir eru skoðaðir kemur í ljós að brottför bandaríska hersins munar nokkru. Í kostnað vegna reksturs gömlu hersvæðanna við Keflavíkurflugvöll fara 280 milljónir króna. Landhelgisgæslan fær 230 milljónir aukalega til að efla þyrlusveit sína og öryggismálanefnd forsætisráðuneytisins fær 16 milljónir svo „fjallað verði um öryggi Íslands á breiðum grundvelli".

Til starfsemi stjórnmálaflokka fara 130 milljónir, svo þeir megi halda uppi svipaðri starfsemi og þeir gera nú, eftir að þak verður sett á fjárframlög einstaklinga og fyrirtækja. Þá er ætlunin að leggja fram 15 milljónir króna vegna endurnýjunar á fartölvubúnaði þingmanna.

Aukaframlag til Háskóla Íslands verður 300 milljónir og Kvikmyndasjóður fær 123 milljónir aukalega frá því sem áður var gert ráð fyrir. Einnig skal 100 milljónum veitt til íslenskukennslu fyrir útlendinga, en færni í málinu er skilyrði fyrir ríkisborgararétti. Framlög til Sinfóníuhljómsveitar Íslands aukast samkvæmt endurskoðuðu frumvarpi um tæpa 141 milljón og framlög til Húsafriðunarsjóðs um 135 milljónir sem deilast niður á rúmlega 40 verkefni.

Minna aðhald

Nái breytingartillögurnar fram að ganga verður tekjuafgangur ríkissjóðs innan við 1 prósent af vergri landsframleiðslu næsta árs, en í fyrra var hann um 6 prósent. Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Glitnis, segir að breytingarnar endurspegli minna aðhald í ríkisfjármálum

„Ójafnvægið og þenslan er mikil í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir," segir Jón Bjarki og bendir á að 800 milljónir séu dregnar út úr atvinnuleysistryggingasjóði, sem hljóti að þýða að ráð sé gert fyrir áframhaldandi þenslu. Því skjóti skökku við að ríkið auki einnig útgjöld sín.

Ótrúverðug kosningafjárlög

Í fjárlagafrumvarpinu er ekkert gert til að taka á kerfisbundinni útgjaldaþenslu ríkissjóðs og nýju breytingartillögurnar miða í sömu átt, segir Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands.

Þetta eru kosningafjárlög sem byggja á veikum grunni. Menn leggja meiri áherslu á ásýnd fjárlaganna en innihald og til þess að fá ásættanlegar niðurstöðutölur, beita menn flötum niðurskurði og reiknikúnstum í stað þess að taka á útgjaldavanda ríkissjóðs. Með þeim tillögum sem nú liggja fyrir þingi er verið að auka útgjöld um 9,5 milljarða og draga þannig úr tekjuafgangi. Þetta veldur áhyggjum. Ef ég man rétt þá líkti seðlabankastjóri fjármálaráðherra við jólasvein og mér sýnist á öllu að hann ætli að reyna að standa undir því viðurnefni," segir Ólafur Darri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×