Innlent

Engin sátt um kvótakerfið

Um kvótakerfið ríkir engin sátt og við í Frjálslynda flokknum munum leggja hiklaust í baráttu gegn óbreyttu kerfi sem veikir byggðir landsins eins og dæmin sanna, hvert af öðru, nú síðast þegar 42 prósent af atvinnurétti Grímseyinga var seldur í dag, sagði Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frálslynda flokksins í sinni ræðu.

Hann ræddi brotthvarf varnarliðsins og sagði ríkisstjórnina hafa látið taka sig í bólinu. Sagði hann nauðsynlegt að miða við að öryggisviðbúnaður á friðartímum sé virkur til eftirlits og viðbragða.

Guðjón gagnrýndi forgangsröðun stjórnvalda í skattamálum, sagði skattastefnuna hafa aukið misskiptingu lífsgæða og ítrekaði vilja Frjálslyndra til afnáms verðtryggingar og stimpilgjalda. Þá lagði hann til að fjáraustur til utanríkisþjónustunnar verði stöðvaður.

Guðjón sagði sérkennilega þá vegferð ríkisstjórnarflokkanna að lagfæra aðeins kjör þeirra sem lægsta afkomu hafa, að undangengnum hótunum eða með málaferlum. Stjórnarandstaðan hefði hins vegar mótað sér allt annan farveg í velferðarmálum sem bæti verulega kjör aldraðra, öryrkja og sjúkra á stofnunum.

Af kerksni furðaði Guðjón sig á að það hafi aðeins tekið þrjá mánuði að vinna gegn þenslu og sagði fram komna nýja hagfræðiþekkingu - 90 daga Haarde-áætlunina - sem vænleg væri til útflutnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×