Innlent

Frítekjur verði 900 þúsund á ári

Stjórnarandstaðan Hefur flutt sameiginlega þingsályktunartillögu sem miðar að því að bæta kjör lífeyrisþega.
Stjórnarandstaðan Hefur flutt sameiginlega þingsályktunartillögu sem miðar að því að bæta kjör lífeyrisþega.

Allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi; Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins, standa að þingsályktunartillögu um endurskoðun lífeyrismála. Samkvæmt henni á að ganga lengra en kveðið er á um í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara frá í sumar um kjarabætur aldraðra og öryrkja.

Samkvæmt tillögunni verður tekjutrygging aldraðra 85 þúsund krónur og öryrkja 86 þúsund, að viðbættum vísitölubreytingum. Um leið verði dregið úr skerðingu, þannig að í stað þess að skattskyldar tekjur yfir frítekjumarki skerði tekjutryggingu um 45 prósent þeirra tekna sem umfram eru, verði hlutfallið 35 prósent.

Þá er kveðið á um að lífeyrisþegar geti haft 900 þúsund krónur í tekjur á ári – 75 þúsund krónur á mánuði – án þess að tekjutrygging skerðist.

Samkomulag ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara miðar að því að frítekjumarkið verði 200 þúsund krónur á ári frá 2009 en hækki upp í 300 þúsund krónur.

Tillögur stjórnarandstöðunnar eru viðbót við samkomulagið frá í sumar. Samkvæmt útreikningum kosta þær 6,5 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×