Innlent

Hefur greitt 42 milljónir króna

SInfóníuhljómsveit Íslands Seltjarnarnesbær þarf ekki lengur að greiða með sveitinni.
SInfóníuhljómsveit Íslands Seltjarnarnesbær þarf ekki lengur að greiða með sveitinni.

Seltjarnarnesbær hefur á síðustu tíu árum greitt samtals 42 milljónir króna til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Bærinn hefur greitt til sveitarinnar frá 1982 en tölur um upphæðir ná aftur til 1996.

Seltjarnarnes hefur eitt sveitarfélaga, utan Reykjavíkurborgar, greitt til Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Þeim kvöðum verður aflétt af bænum gangi frumvarp menntamálaráðherra um Sinfóníuhljómsveitina eftir.

Í frumvarpinu eru skyldur Ríkisútvarpsins og Seltjarnarness um þátttöku í rekstri hljómsveitarinnar afnumdar. Síðan 1982 hefur ríkissjóður greitt 56 prósent af rekstrarkostnaði sveitarinnar, Ríkisútvarpið 25 prósent, Reykjavíkurborg átján og Seltjarnarnes eitt prósent. Eftirleiðis verður hlutfall ríkisins 82 prósent en Reykjavíkur áfram átján prósent.

Þegar þátttaka Seltjarnarness var ákveðin stóð til að fleiri sveitarfélög kæmu að rekstrinum. Af því varð ekki og hefur bæjarstjórn lengi mótmælt fyrirkomulaginu.

Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri fagnar því að bærinn losni undan skyldugreiðslum. Hann kveðst hins vegar stoltur af framlögunum og hljómsveitinni og útilokar ekki þátttöku í rekstri hennar með frjálsum framlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×