Innlent

Nauðgað í kirkjugarði á Norðurbrú

Kaupmannahöfn Stúlkan hafði verið úti að skemmta sér í borginni þegar atburðurinn átti sér stað.
Kaupmannahöfn Stúlkan hafði verið úti að skemmta sér í borginni þegar atburðurinn átti sér stað.

Tvítug íslensk stúlka hefur kært nauðgun til lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Samkvæmt frétt Ekstra blaðsins átti atburðurinn sér stað í kirkjugarði á Norðurbrú síðastliðið miðvikudagskvöld. Stúlkan sagði lögreglu að hún hefði hitt ungan mann inni á skemmtistaðnum Cafe Rust, en hún hafði þá verið úti að skemmta sér ásamt nokkrum vinkonum sínum.

Hún og maðurinn hafi stuttu síðar ákveðið að fara út af staðnum til að fá sér ferskt loft og hafi í kjölfarið gengið smá spöl um hverfið þar til að þau komu að kirkjugarðinum. Stúlkan hélt að um almenningsgarð væri að ræða og fylgdi því manninum yfir vegg hans. Þegar inn í kirkjugarðinn var komið hafi þó orðið ljóst að maðurinn vildi fá meira úr samvistum þeirra en stúlkan hefði ætlað sér. Hann hafi því ráðist á hana og nauðgað henni.

Eftir árásina lét maðurinn sig hverfa af vettvangi. Lögreglumenn urðu varir við stúlkuna stuttu síðar þar sem hún ráfaði ráðvillt um. Þeir keyrðu hana heim til vinafólks þar sem hún brotnaði saman og sagði lögreglumönnunum frá því sem átt hafði sér stað. Hún var í kjölfarið flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. Rannsókn málsins stendur enn yfir og maðurinn er ófundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×