Innlent

Grbavica uppgötvun ársins

Verðlaunin veitt. Biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson, veitir hér verðlaun fyrir hönd íslensku þjóðkirkjunnar en þau hlaut þýska kvikmyndin Fjórar mínútur. Sendiherra Þýskalands á Íslandi, Johann Wenzl, tók við verðlaununum.
Verðlaunin veitt. Biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson, veitir hér verðlaun fyrir hönd íslensku þjóðkirkjunnar en þau hlaut þýska kvikmyndin Fjórar mínútur. Sendiherra Þýskalands á Íslandi, Johann Wenzl, tók við verðlaununum.

Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík lauk á laugardaginn með pomp og prakt og voru verðlaun veitt í hinum ýmsu flokkum. Aðalverðlaun hátíðarinnar sem nefnast „uppgötvun ársins“ gengu til bosnísku kvikmyndarinnar Grbavica eftir Jasmila Zbanic. Það var formaður dómnefndar, Niki Karimi, sem veitti verðlaunin en Grbavica heitir eftir samnefndu hverfi í Bosníu og er raunsætt drama um eftirstríðsárin í Bosníu.

Samtök kvikmyndagagnrýnenda og blaðamanna, FIPRESCI, veittu ensku kvikmyndinni Rauður vegur eftir Andrea Arnold sín verðlaun og danska kvikmyndin Draumurinn eftir leikstjórann Niels Arden Oplev hlaut áhorfendaverðlaun hátíðarinnar. Myndin er ein af vinsælustu kvikmyndum Dana það sem af er ári. Sérstök mannréttindaverðlaun voru einnig veitt á hátíðinni og þau féllu i skaut mexíkósku kvikmyndarinnar Af engum eftir Tin Dirdamal.

Að lokum veitti biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, verðlaun fyrir hönd íslensku þjóðkirkjunnar en þau hlaut þýska kvikmyndin Fjórar mínútur eftir Chris Klaus. Í rökstuðningi dómnefndar kirkjunnar segir að sagan í myndinni veki upp spurningar um tilgang lífsins, frelsi, köllun og hæfileika. Kraftaverk endurlausnar og sigurs gerist á fjórum mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×