Innlent

Sérsveitin æfði með áhöfn USS WASP

Sérsveit Ríkislögreglustjóra á æfingunni Sérsveitin var tæpar sex mínútur að klára verkefni sitt í byrgi á æfingasvæði sérsveitar ríkislögreglustjóra í gær. Þyrla bandaríska hersins flutti sérsveitarmenn á svæðið.
Sérsveit Ríkislögreglustjóra á æfingunni Sérsveitin var tæpar sex mínútur að klára verkefni sitt í byrgi á æfingasvæði sérsveitar ríkislögreglustjóra í gær. Þyrla bandaríska hersins flutti sérsveitarmenn á svæðið. MYND/GVA

Sérsveit ríkislögreglustjóra, ásamt tveimur sprengjusérfræðingum, tókst að ljúka verkefni sínu á æfingasvæði sérsveitarinnar í Hvalfirði án vandræða. Æfingin fór fram í hávaða­roki en að sögn Guðmundar Ómars Þráinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá embætti Ríkislögreglustjóra gekk æfingin vel. „Tilgangur æfingarinnar var að æfa sérsveitina með þyrlunni. Við settum æfinguna upp þannig að sérsveitin, ásamt sprengjusérfræðingum, þyrfti að bregðast við upplýsingum sem áttu að hafa borist til lögreglu. Æfingin gekk nánast hnökralaust, en það er mikilvægt fyrir sveitina að geta æft við þessar aðstæður.“

Tveir sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru með sérsveitinni og tókst þeim að nota sprengjueyðingartæki, eins konar vatnsbyssu, til þess að gera sprengjuna óvirka.

Sigurður Ásgrímsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni, fylgdist með lærisveinum sínum gera sprengjuna óvirka inni í byrgi sem búið var til úr gámum. „Þegar það eru gerð áhlaup á hús, þar sem grunur leikur á að sé verið að búa til sprengju, þá eru sprengjusérfræðingar hafðir með í för til þess að eyða sprengjunni og þar með mikilli hættu,“ sagði Sigurður áður en hann hrósaði sérsveitinni og sprengjusérfræðingunum fyrir að standa vel að verki. „Sprengjan í þessari æfingu var tímasprengja sem átti að springa á fyrirfram ákveðnum tíma, auk þess átti hún að springa ef hún yrði hreyfð. Sprengjusérfræðingarnir meðhöndluðu þetta vel og tókst að gera hana óvirka með fagmannlegum hætti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×