Innlent

85 heilabilaðir bíða eftir dagvist

Siv Friðleifsdóttir  Heilbrigðisráðherra segir að unnið sé að því að stytta biðtíma eftir sjúkdómsgreiningu.
Siv Friðleifsdóttir Heilbrigðisráðherra segir að unnið sé að því að stytta biðtíma eftir sjúkdómsgreiningu.

Fjögurra til fimm mánaða bið er eftir sjúkdómsgreiningu á minnismóttökunni á Landakoti.

85 bíða eftir dagvist á sérhæfðum deildum. Nítján umsóknir eru óafgreiddar.

Þetta kom fram í máli heilbrigðisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, við umræður utan dagskrár á Alþingi um þjónustu við heila­bilaða.

Ásta R. Jóhannesdóttir Samfylkingunni var málshefjandi og lýsti því að á Íslandi væru um þrjú þúsund manns með heilabilun á einhverju stigi. Áætlað væri að um tólf þúsund aðstandendur líði vegna sjúkdómsins.

Sagði hún að ástandinu í málefnum heilabilaðra væri mjög ábótavant, fleiri sérhæfð úrræði vantaði tilfinnanlega. Og ekki væri nóg að horfa til stöðunnar eins og hún er í dag. „Vandinn er stór og mun stækka. Heilabiluðum mun fjölga um helming á næstu fimmtán árum.“

Siv Friðleifsdóttir sagði unnið að því að stytta biðtíma eftir sjúkdómsgreiningu á minnismóttökunni og kvað brýnt að fjölga plássum til hvíldarinnlagna. Hún upplýsti líka að dagvistarpláss fyrir minnissjúka væru 129 á landinu öllu og að þrjátíu ný rými fyrir heilabilaða yrðu á nýju hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×