Skoðun

Samskipti barna og foreldra

Að hafa aðgengi að foreldrunum skiptir jafnvel hvað mestu máli.

Í þessum stutta pistli langar mig að velta vöngum yfir eðli þeirra samskipta sem foreldrar og börn eiga saman. Sjálf hef ég haldið ótal fyrirlestra um þetta málefni fyrir foreldra og einnig fyrir ólíka hópa í samfélaginu sem starfa með börnum.

Heilmiklar rannsóknir hafa einnig verið gerðar á því hvort það sé tímalengd samverunnar eða hvort tíminn sé aukaatriði heldur séu það gæði samverunnar sem skipta hvað mestu máli. Þá er átt við hvort verið sé að tala saman eða gera eitthvað saman. Allt er þetta gott og gilt. Sá punktur sem mig myndi þó langa að reifa hér hefur að gera með að hafa sem oftast öruggt aðgengi að foreldrum sínum.

Mörg okkar sem eru komin á miðjan aldur munum hvernig þessu var háttað á okkar bernskuárum. Flestar mæður voru þá heima. Börnin vissu af mæðrum sínum á heimilinu og var hún gjarnan heima þegar þau komu úr skólanum. Hvert innihald samskiptanna var og hvort þau voru rík af gæðum hefur, eins og gengur og gerist, auðvitað verið afar mismunandi.

Því má spyrja nú þegar við erum á fleygiferð inn í framtíðina, margir í meira en 100% vinnu og á kafi í lífsgæðakapphlaupinu hvaða tegund af samskiptum skilar sér best til barna okkar. Þar sem tímaskortur vegna anna er víða vilja margir gefa því gaum með hvaða hætti samskiptum við börnin sé best háttað þannig að þau gagnist þeim sem best. Ég held að það að hafa aðgengi að foreldrum sínum með einum eða öðrum hætti sé með því mikilvægasta fyrir þau.

Heilbrigð skynsemi segir auðvitað að sitt lítið af hverju s.s. aðgengi, samvera, að tala saman og gera eitthvað saman hlýtur að vera farsælast. En ef það er nú svo að það þyrfti að forgangsraða vegna tímaskorts eða einhvers annars þá er ekki ósennilegt að aðgengið kunni að vera býsna ofarlega.

Það að barnið og unglingurinn viti hvar foreldrarnir eru, hvernig hægt er að ná í þá þegar þeim langar að spjalla eða þegar mikið liggur við er afar mikilvægt. Þegar börn og foreldrar eru saman heima er það ekki hvað síst einfaldlega nærveran sem börnin kunna hvað mest að meta.

Höfundur er sálfræðingur gefur kost á sér í 6. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×