Skoðun

Ísland og alþjóðleg samkeppni

Stjórnvöld gegna stóru hlutverki í alþjóðlegri samkeppni. Stefna stjórnvalda hefur áhrif á samkeppnisstöðu þjóðarinnar bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Markmið stjórnvalda á að vera að skapa umhverfi þar sem fyrirtæki geta uppfært samkeppnisyfirburði í greinum sem fyrir eru en einnig að auðvelda fyrirtækjum inngöngu í nýjar atvinnugreinar með möguleika á mikilli framlegð.

Mikilvægt hlutverk hins opinbera er að stuðla að þróun framleiðsluþáttanna með því að efla og styðja við menntun, rannsóknir og nýsköpun. Beinum ríkisafskiptum á að halda í lágmarki. Hlutverk stjórnvalda á sviði upplýsingarmiðlunar er þó mikilvægt.

Einstakar atvinnugreinar og fyrirtæki

Tekjur af sjávarafurðum hafa löngum verið stærsti einstaki tekjupóstur þjóðarinnar. En tekjur af erlendum ferðamönnum og af stóriðju hafa undanfarin ár verið vaxandi hluti þjóðartekna. Tekjur af þjónustu banka og fjármálafyrirtækja eru sér kapítuli út af fyrir sig, slíkur hefur vöxtur og útrás þeirra verið undanfarin misseri.

Frelsi í viðskiptum hefur aukist undanfarin ár og leitt til eins mesta velmegunar- og framfaraskeiðs í sögu þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að viðhalda og auka viðskiptafrelsi en leggja jafnframt áherslu á stöðugleika, lága verðbólgu og heilbrigða samkeppni.

Íslendingar geta ekki ekki lengur treyst á hagnýtingu frumvinnslu náttúrauðlinda til að halda samkeppnishæfni sinni meðal þjóðanna og hagsæld í framtíðinni. Nauðsynlegt er að leggja frekari rækt við þróaðri þætti fremur en að einblína á grunnþætti framleiðslunnar.

Í heilbrigðisgeiranum hefur fyrirtækið Össur skapað sér sterka stöðu á sviði endurhæfingar og er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu gervilima. Þannig hafa þróast tækifæri fyrir Ísland til að marka sér sérstöðu gagnvart öðrum þjóðum. Nýsköpun hefur sprottið upp í skjóli sjávarútvegs. Marel hefur með sérhæfingu sinni sinni dafnað og öðlast viðurkenningu á alþjóðlegum mörkuðum, eru þá ótalin fyrirtækin Actavis, Exista o.fl.

Bláa lónið er vel kynnt sem heilsulind sem dregur að erlenda ferðamen. Einnig kunna að vera sóknarfæri á endurhæfingarstöðvum á Reykjalundi og í Heilsustofnun H.N.L.F.Í. í Hveragerði. SÁÁ stendur vel að endurhæfingu áfengis- og vímuefnaneytenda enda líta útlendingar þangað öfundaraugum. Á þessum sviðum liggja markaðsleg sóknarfæri. Styrkurinn á sviði endurhæfingar er íslenskur mannauður og framandi umhverfi fjarri ys og þys stórborga. Lykilatriði er sterk ímynd og hreinleiki landsins.

Náttúruauðlindir

Ísland býr yfir miklum náttúruauðlindum þó ekki séu allir sammála um hvernig nýta eigi auðlindir landsins. Þess vegna er miklisvert að vel takist til við stefnumótun í auðlindanýtingu þjóðarinnar og almenn sátt ríki. Útflutningur matvæla, bæði landbúnaðarvara og sjávarfangs hefur takmörk að magni til en vaxtarmöguleikar felast í hollustu og gæðum afurða ef tekst að skapa hreina og náttúruvæna ímynd landsins á alþjóðavettvangi. Vísindaleg nýting auðlinda er nauðsyn í þeirri viðleitni.

Höfundur er umhverfishagfræðingur og gefur kost á sér í 3.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×