Innlent

Sameinast í eitt markaðssvæði

Þórshöfn í færeyjum Hindranir hafa verið í vegi fyrir frjálsum flutningi á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki á milli Íslands og Færeyja.
Þórshöfn í færeyjum Hindranir hafa verið í vegi fyrir frjálsum flutningi á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki á milli Íslands og Færeyja. MYND/AFP

Kaupmannahöfn Ísland og Færeyjar munu verða eitt markaðssvæði um næstu mánaðamót þegar „Hoyvikssamningurinn“ svonefndi gengur í gildi.

Þar sem Færeyjar standa utan við tollabandalag Evrópusambandsins en Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu hafa vissar hindranir verið í vegi fyrir „fjórfrelsinu“ milli frændþjóðanna en í því felst frjáls flutningur á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki. Á þessu á nýja samkomulagið, sem gengur í gildi á morgun, að ráða bót.

Gildistökunni verður fagnað með móttöku í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn, þar sem Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Jóannes Eidesgaard, lögmaður Færeyinga, verða sameiginlega í gestgjafahlutverki.

Umsókn Færeyinga um að fá fulla sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði, sem Íslendingar hafa stutt, kvað ekki munu verða afgreidd á þingi Norðurlandaráðs að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×