Innlent

Apótekari íhugar skaðabótamál gegn heilbrigðisráðherra

Jón Kristjánsson og siv friðleifsdóttir Jón var heilbrigðisráðherra þegar málið kom upp en ef skaðabótamál verður höfðað verður það gegn Siv, sem er núverandi heilbrigðisráðherra.
Jón Kristjánsson og siv friðleifsdóttir Jón var heilbrigðisráðherra þegar málið kom upp en ef skaðabótamál verður höfðað verður það gegn Siv, sem er núverandi heilbrigðisráðherra. MYND/GVA

„Ég er mjög glöð að með tímanum hefur það komið í ljós að mín rök voru rétt,“ segir Hanna María Siggeirsdóttir, fyrrverandi lyfsali í Apóteki Vestmannaeyjum.

Umboðsmaður Alþingis segir að með úthlutun Jóns Kristjánsonar, þáverandi heilbirgðisráðherra, á lyfsöluleyfi til lyfjafræðings Lyfja og heilsu ehf. hafi verið brotið gegn ákvæði lyfsölulaga um að fimm þúsund íbúa þurfi að baki hverju apóteki.

„Árið 2003 sótti lyfjafræðingur um lyfsöluleyfi í Vestmannaeyjum þar sem rekstraraðilinn átti að vera Lyf og heilsa. Ráðherrann hafnaði að veita það leyfi á þeirri forsendu að það væri of fátt fólk í Vestmannaeyjum fyrir tvö apótek. Tveimur árum seinna, og þegar var tvö hundruð manns færra í Vestmannaeyjum, sótti annar lyfjafræðingur um lyfsöluleyfi fyrir Lyf og heilsu og þá veitti sami ráðherra lyfsöluleyfi,“ útskýrir Hanna María, sem segist aldrei hafa fengið haldbærar skýringar á þessari breyttu afstöðu ráðherrans. Hún seldi apótek sitt til Lyfja og heilsu í júní í fyrra.

Umboðsmaður segir að þótt heilbrigðisráðuneytið hafi bæði brotið lyfjalög og stjórnsýslulög séu ekki forsendur til að beina því til ráðuneytisins að afturkalla leyfið. Skaðabótakröfur verði Hanna María að setja fram fyrir almennum dómstólum. Hún segist vera að skoða hvort slík krafa verði sett fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×