Innlent

Öryggi í leigubílum verður aukið

Sturla böðvarsson
Sturla böðvarsson

Í undirbúningi eru breytingar á reglugerð, þar sem meðal annars verður tekið á auknum öryggisbúnaði í leigubifreiðum, að sögn Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra.

Fréttablaðið hefur að undanförnu fjallað um stöðu þessara mála. Í ljós hefur komið að lágmarksbúnaður er í bílum á sumum stöðvum en alls enginn hjá öðrum. Tveir leigubílstjórar sögðu frá reynslu sinni úr starfi í blaðinu á laugardag. Þar kom fram að þeir hefðu ítrekað orðið fyrir áreiti og jafnvel líkamlegu ofbeldi í starfi.

„Ég hef ekki enn fengið tillögu að breytingum á öryggisbúnaði í leigubifreiðum, en að henni er unnið nú,“ sagði Sturla. Hann sagði enn fremur að fyrirhugaður væri fundur ráðuneytisins með forsvarsmönnum leigubifreiðastjóra og bifreiðastöðvanna.

„Það er nauðsynlegt að á þessu máli verði tekið og því hraðað,“ segir ráðherra, sem kveðst jafnframt leggja áherslu á að málið verði unnið í góðri samvinnu þeirra sem það varði. „Þess verður vonandi ekki langt að bíða að tillögurnar liggi fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×