Bíó og sjónvarp

Glöggt er gests augað

Niðurstaða: Meinfyndið sprell og eftirminnileg ádeila í frábærri sýningu.
Niðurstaða: Meinfyndið sprell og eftirminnileg ádeila í frábærri sýningu.

Leikhópurinn Rauði þráðurinn sýnir í Iðnó

Höfundur Hávar Sigurjónsson, María Reyndal og leikhópurinn / Leikarar Caroline Dalton, Tuna Metya, Pierre-Alain Giraud og Dimitra Drakopoulou / Leikmynd- og ljósahönnun Egill Ingibergsson og Móeiður Helgadóttir / Búningar Dýrleif Ýr Örlygsdóttir og Margrét Einarsdóttir / Tónlist og hljóðmynd Þorkell Heiðarsson / Leikgervi Jóna Sólbjört Ágústsdóttir og Sigríður Rósa Bjarnadóttir / Danshöfundur Lára Stefánsdóttir/ Leikstjóri María Reyndal

Við Íslendingar höfum óendanlegan áhuga á okkur sjálfum og þar með á viðhorfi annarra til okkar. Viðfangsefni sýningarinnar Best í heimi eru samskipti Íslendinga við útlendinga þar sem flett er ofan af ýmiss konar fordómum, látalátum og heimóttarskap. Þarna er á ferðinni meinfyndið verk sem samanstendur af stuttum þáttum eða frásögnum af fólki sem fléttast saman. Fjörið hefst og endar í flugvél en persónurnar eru allra landa farþegar og auðvitað séríslensk áhöfn sem kallar fram ófáar brosviprur hjá þurrlyndustu þjóðernissinnum.

Leikhópurinn er hreint út sagt frábær. Verkið er leikið á íslensku en leikhópinn skipa Caroline Dalton frá Englandi, Dimitra Drakopoulou frá Grikklandi, Pierre-Alain Giraud frá Frakklandi og Tuna Metya frá Tyrklandi. Öll bregða þau sér í fjölmörg gervi og er frammistaða þeirra alveg glimrandi góð. Þau mynda sterkan og samstilltan hóp og hafa öll mikla útgeislun á sviðinu. Mismikið reyndi á hádramatíska tilburði í verkinu en vert er að minnast á leik Dimitru Drakopoulou sem túlkar móðurina ungu, Kim, sem missir forræði yfir barni sínu. Leikur hennar snart mig mjög og áhrifamikil lokaræða hennar fylgir leikhúsgestum út í nóttina, minnug þess að þarna var ekki aðeins dugmikið sprell á ferðinni heldur líka eftirminnileg ádeila á núverandi ástand.

Leikritið er á íslensku en enskum texta er varpað á sviðsmyndina svo þeir sem ekki skilja hið ástkæra ylhýra geta einnig notið sýningarinnar. Reyndar er mikið spaugað með tungumálið í verkinu, líkt og með hinar klassísku forhugmyndir fólks um Ísland, vegsömun náttúruperlanna og ofuráherslu á sérstöðu íslensku þjóðarinnar. Grínið er oftar en ekki tengt vandræðalegum uppákomum sem útlendingar lenda í þegar þeir mæta velmeinandi eða óþolinmóðum Íslendingum, til dæmis þegar kemur að starfsþjálfun ræstitækna á heilbrigðisstofnunum.

Heildarmynd sýningarinnar fannst mér faglega unnin, búningar og gervin nutu sín vel í einfaldleika sínum, leikmyndin var stórsniðug og dansnúmerin lífguðu mikið upp á sýninguna. Það er fáa annmarka að finna á þessu framtaki Rauða þráðarins, helst væri þó að grínið var full einsleitt en þó ekki svo að maður hætti nokkurn tíma að skemmta sér á sýningunni.

Leiksýningin Best í heimi er verðug áminning um að við erum ekki aðeins íbúar lands eða mislyndir gestgjafar heldur tökum við þátt í títtnefndu fjölmenningarsamfélagi með gjörðum okkar og orðum. Ég hvet alla þá sem vettlingi geta valdið að sjá þessa sýningu.

Kristrún Heiða Hauksdóttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.