Innlent

Búið að veiða fyrstu hrefnuna

Ísafjörður Fyrstu hrefnunni sem veidd hefur verið í atvinnuskyni á Íslandi um árabil var landað á Ísafirði í gær.
Ísafjörður Fyrstu hrefnunni sem veidd hefur verið í atvinnuskyni á Íslandi um árabil var landað á Ísafirði í gær.

Rétt fyrir hádegi í gær veiddu skipverjar á Halldóri Sigurðssyni ÍS frá Ísafirði fyrstu hrefnuna sem veidd er í atvinnuskyni. Skipverjarnir veiddu hrefnuna í mynni Mjóafjarðar í Ísafjarðardjúpi og komu með hana til Ísafjarðar síðdegis í gær:

,,Hún er hátt í níunda metra en er ekki þung," segir Konráð Eggertsson, skipstjóri á Halldóri Sigurðssyni ÍS, og bætir því við þeir séu stoltir af því að hafa veitt fyrstu hrefnuna. ,,Þetta er sko góð byrjun, við fórum frá Ísafirði um áttaleytið í morgun og vorum búnir að skjóta hrefnuna innan við fjórum tímum síðar."

Konráð segir að það komist ekki á hreint fyrr en um helgina hvenær skipverjar haldi aftur út á sjó til að skjóta fleiri hrefnur.

Annar hrefnuveiðibátur fór frá Kópavogi í gær en sneri aftur til lands þegar fréttist af veiði skipverja Konráðs og félaga.

Fleiri hvalveiðiskip fengu hval í gær því Hvalur 9 er á leið til lands með tvær langreyðar og er gert ráð fyrir að hann komi að Hvalstöðinni í Hvalfirði um klukkan níu í fyrramálið.

Langreyðarnar voru veiddar á svipuðum slóðum og hvalirnir fimm sem skipverjar Hvals 9 eru búnir að veiða, og eru af svipaðri stærð og þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×