Innlent

Einkavæðing ekki á dagskrá

Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, kvað á Alþingi í gær skýrt að orði um að ekki standi til að einkavæða Landsvirkjun. Helgi Hjörvar, Samfylkingunni, tók málið upp við upphaf þingfundar og krafði Jón svara um nokkur atriði er lúta að samningnum um kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í fyrirtækinu.

„Það liggur ekki fyrir að fyrirtækið verði selt, allra síst einkaaðilum. Það liggur þvert á móti fyrir að við þetta verður látið sitja," sagði Jón. Hann sagði það líka sinn skilning á samningnum að ríkið yfirtæki ábyrgðir sveitarfélaganna á lánum Landsvirkjunar.

Mörður Árnason, Samfylkingunni, spurði hve langt yfirlýsing ráðherrans næði; hvort Landsvirkjun verði kannski seld á næsta kjörtímabili og Jón Bjarnason, Vinstri grænum, benti á að aðrir ráðherrar hafi lýst yfir vilja til að selja fyrirtækið.

Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, sagði flokk sinn andvígan sölu sveitarfélaganna á hlut sínum í Landsvirkjun en Kristján L. Möller, Samfylkingunni, kvaðst samþykkur viðskiptunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×