Innlent

Dýrari þjónusta fyrir aldraða

Félag eldri borgara í Reykjavík segir leiðréttingu á kjörum sem tók gildi í sumar vegna verðbólgu að mestu hverfa við hækkanirnar.
Félag eldri borgara í Reykjavík segir leiðréttingu á kjörum sem tók gildi í sumar vegna verðbólgu að mestu hverfa við hækkanirnar.

Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu, félagsstarf, fæði og veitingar í félagsstarfi og þjónustugjöld í þjónustuíbúðum aldraðra í Reykjavík mun hækka um tæp níu prósent næstu áramót samkvæmt samþykkt velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Í bókun meirihluta ráðsins segir að hækkun vísitölu hafi verið vanáætluð í fjárhagsáætlun ársins 2006 og 4,4 prósent hafi vantað upp á hækkun gjaldskráa í fyrra.

Félag eldri borgara í Reykjavík lýsir yfir undrun og vonbrigði með hækkanirnar. Margrét Margeirsdóttir, formaður félagsins, segir borgarstjórnarmeirihlutann ekki standa við yfirlýsingar sínar frá í vor um að bæta kjör aldraðra. ¿Örvænting er í fólki sem hefur verið að hringja í mig og sér ekki fram á að hafa efni á þjónustu sem það hafi þörf fyrir.¿

Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs, segir þessar hækkanir nauðsynlegar til að ekki þurfi að draga úr þjónustunni og bætir við að verið sé að auka þjónustu við aldraða til dæmis með akstursþjónustu og skipulögðum heimsóknum.

Jórunn tekur fram að þeir sem séu á strípuðum bótum og lægstu laununum greiði ekki fyrir heimaþjónustu.

"Hækkunin á því ekki að bitna á þeim sem verst eru settir." Spurð um hvort einhverjir lendi hugsanlega utan þess hóps en hafi samt ekki efni á þjónustu telur hún það ekki vera og því þurfi ekki að skoða það sérstaklega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×