Innlent

Undrast metnaðarleysi ráðherra

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Lenging flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli er ekki á samgönguáætlun.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Lenging flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli er ekki á samgönguáætlun.

Ekki er gert ráð fyrir lengingu flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli í núgildandi samgönguáætlun og því tómt mál að tala um að ráðast nú þegar í verkefnið. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra svaraði þessu aðspurður á Alþingi í gær.

Kristján L. Möller, Samfylkingunni, spurði ráðherra út í áætlanir um úrbætur á Akureyrarflugvelli í tilefni frétta af ákvörðun Iceland Express um að hætta vetrarflugi frá vellinum. Ástæður þess eru ónógur aðflugsbúnaður og of stutt flugbraut.

Sturla sagði að sér væri ekki kunnugt um að þetta væru ástæður ákvörðunar flugfélagsins en unnið væri að ýmsum endurbótum á vellinum. Lenging flugbrautarinnar væri þó ekki á dagskrá enda ekki gert ráð fyrir framkvæmdinni í samgönguáætlun. Sagði ráðherra það engu að síður vilja sinn að verkefnið verði tekið til athugunar við endurskoðun samgöngu-áætlunar.

Áætlað er að verkið kosti um hálfan milljarð króna.

Halldór Blöndal, Sjálfstæðisflokki, og fyrrverandi samgönguráðherra, sagði lengingu flugbrautarinnar brýna og spurði hvers vegna verkið væri ekki forgangsverkefni. Undraðist hann metnaðarleysi samgönguráðherra í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×