Innlent

Þjóðkirkjan braut jafnréttislög

Biskup Íslands vék sæti þegar skipað var í embætti sendiráðsprests í Lundúnum þar sem tengdasonur hans var meðal umsækjenda.
Biskup Íslands vék sæti þegar skipað var í embætti sendiráðsprests í Lundúnum þar sem tengdasonur hans var meðal umsækjenda.

Þjóðkirkja Íslands braut jafnréttislög með skipun Sigurðar Arnarsonar í embætti sendiráðsprests í Lundúnum haustið 2003. Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis og viðurkenndi skaðabótaskyldu íslensku þjóðkirkjunnar gagnvart Sigríði Guðmarsdóttur, en hún var meðal umsækjenda um stöðuna.

Sigríður höfðaði mál á grundvelli þess að jafnréttislög hefðu verið brotin þar sem hún taldi að starfsreynsla hennar og menntun gerði hana jafnhæfa eða hæfari til starfsins en sá sem var ráðinn. Þegar ráðið var í embættið var skipuð sérstök hæfnisnefnd og mælti hún með Sigurði í embættið. Biskup vék sæti í málinu þar sem Sigurður er tengdasonur hans og skipaði vígslubiskupinn í Skálholti í embættið.

Í dómi Hæstaréttar segir að engin kona hefði gegnt prestsembætti erlendis á vegum íslensku þjóðkirkjunnar og kirkjan hafi ekki sýnt fram á aðrar ástæður en að kynferði hefði legið til grundvallar þeirri ákvörðun að skipa Sigurð í embættið.

Skaðabótaskyldan var viðurkennd þar sem leiddar hefðu verið nægilega miklar líkur að því að Sigríður hefði orðið fyrir fjárhagstjóni sem þjóðkirkjan bæri ábyrgð á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×